Saga Bíla-Doktorsins
Reksturs fyrirtækisins hófst upphaflega í september árið 2007 og var tilgangur þess fyrst að verða flutningafyrirtæki undir nafninu Bílaflutningar.is. Á vordögum 2008 var hinsvegar ljóst að þann rekstur vantaði húsnæði til viðhalds og reksturs ökutækja. Þá kom upp hugmynd að breyttum áherslum í rekstri og starfsemi og lítið bílaverkstæði sem rekið væri samhliða flutningum var komið á teikniborðið. Á svipuðum tíma var hafinn innflutningur á Gollit bílahreinsivörum og markaði það jafnframt upphafið af verslunarrekstri okkar.
Í ágúst 2008 var síðan opnað bílaverkstæði að Bakkabraut 8 í Kópavogi, og þá þurfti að finna verkstæðinu nafn. Ákveðið var að velja nafnið Bíla-Doktorinn, en nafnið er dregið af viðurnefnunum "Doktorinn" eða hinu þýska "Herr Doktor" sem að eigandi fyrirtækisins, Rúnar Sigurjónsson, hafði verið kallaður meðal bílaáhugamanna um nokkurra ára skeið.
Margir hafa spurt um ástæður þess hvers vegna Bíla-Doktorinn er stafsett í tveim orðum með bandstriki á milli og Doktorinn með stórum staf. Ástæðan er sú að Doktorinn er viðurnefni og tekur því nafið sér sama rithátt og t.d. Fjalla-Eyvindur.
Lítið pláss var fyrir verslun eða búð á Bakkabrautinni, en samt vorum við fyrst um sinn að selja svolítið af vörum. Aðallega var um að ræða endursölu á vörur frá innlendum byrgjum ásamt því að flytja eitthvað af varahlutum inn sjálfir. Í byrjun árs 2010 hófst síðan hin mikla uppbygging varahlutadeildar okkar fyrir alvöru þegar við komumst í samband við okkar fyrsta erlenda vörubirgja. Byrjað var á að panta inn á lager nokkurt magn af varahlutum fyrir Mercedes-Benz bíla, en áralöng reynsla stjórnanda fyrirtækisins af sölu varahluta fyrir þá bíla réð því á hverju var byrjað. Leitast var eftir að panta inn gæðavarahluti sem hægt væri að bjóða á sanngjörnu verði. Með þessu vildum við fyrst og fremst auka þjónustuna og stuðla að meiri samkeppni fyrir viðskiptavini okkar. Hugarfóstrið var að gæta öryggismála okkar viðskiptavina með því að velja gæðavottaðar vörur og bjóða þær á hagstæðu verði.
Ljóst var að vegna þessara breytinga og aukinna umsvifa hentaði húsnæðið á Bakkabrautinni ekki lengur starfseminni og var því ákveðið að hefja leit að stærra og hentugara húsnæði fyrir Bíla-Doktorinn þar sem pláss væri fyrir lager og varahlutaverslun. Í september 2010 urðu þau tímamót að Bíla-Doktorinn flutti alla sína starfsemi af Bakkabrautinni í stærra og rúmbetra húsnæði að Skútuvogi 13 í Reykjavík. Þar er miklu betri og snyrtilegri aðstaða og aðgengi fyrir starfsmenn og viðskiptavini.
Á nýju ári 2011 var ákveðið að auka þjónustuna og bjóða upp á þjónustu fyrir Audi, Skoda og Volkswagen bíla til viðbótar við þjónustu okkar á Mercedes-Benz. Varahlutapöntun var sett í gang og pöntuð aflestrartalva til að geta lesið af VAG bifreiðum.
Í lok árs 2011 var bílaflutningabíll félagsins seldur og þeim flutningum sem við höfðum áður sinnt í útseldri vinnu hætt. Eldri flutningabíl var hinsvegar haldið í eigu Bíla-Doktorsins sem þjónustutæki fyrir okkur sjálfa. Upphaflegur tilgangur félagsins var þannig lagður af og starfsemin eingöngu látin snúast um rekstur verkstæðis og varahlutaverslunar.
Í júníbyrjun árið 2012 var svo loks lokið þeim áfanga að innrétta huggulega og flotta varahlutaverslun og móttöku í Skútuvoginum. Með því var markmiði okkar að búa til huggulega aðstöðu fyrir viðskiptavini náð og varahlutaverlunin sem hafði verið í undirbúningi og mótun í næstum fjögur ár var formlega opnuð.
Á vordögum 2018 varð okkur ljóst að ekki stæði okkur lengur til boða að leigja húsakost þann sem við höfðum haft til afnota í Skútuvogi 13. Leigusamningur var að renna út og leit að öðru hentugu og hagkvæmu húsnæði hefur ekki borið árangur. Við svo búið var ljóst að við myndum loka verkstæði og verslun okkar í þeirri mynd sem hún var.
Á vordögum 2019 var ljóst að eitthvað varð að gera við gríðarstóran lager og þá þekkingu og þjónustu sem til var í Bíla-Doktornum. Því var ákveðið að opna frístundaverkstæði og verslun í Bugðufljót 7 í Mosfellsbæ. Þar var meiningin á bjóða varahluti og viðgerðir og hafa fyrirtækið opið stund og stund utan hefðbundins opnunartíma. Þegar þetta er ritað er allt að verða klárt til að opna og stutt í að þetta verði að veruleika.
Til baka á forsíðu
|